Til heiðurs Vance Peavy

Öðruvísi mér áður brá - þetta segir hún mamma mín þegar hún verður hissa. Í nokkurn tíma hef ég hef lifað samkvæmt því að ein besta leiðin til að eyða laugardagskvöldum feli í sér eitthvað sem inniheldur rauðvín og góðan félagsskap. Í kvöld hef ég verið að undirbúa ritgerð sem ég ætti náttúrulega að vera löngu búin að skrifa, alla vega fyrsta uppkast. Búin að lesa helling um hugsmíðahyggju og hvernig hún hefur breytt náms- og starfsráðjgöf. Nýjar aðferðir á nýrri öld. Og mikið ofboðslega er þetta skemmtilegt.

Ætli það hafi ekki verið 1998 sem ég sat námskeið með frábærum gömlum Kanadamanni að nafni Vance Peavy. Það voru fyrstu kynni mín af hugsmíðahyggju. Mér fannst það sem hann hafði að segja ekkert frábært til að byrja með og átti erfitt með að hemja þá skoðun. Spurði hann stöðugt og var með hálfgerðan mótþróa. Ekki til að vera fúl, heldur átti ég erfitt með að gúddera kenningar hans og aðferðir - enda ekki í stíl við hávísindalegan hugsunarhátt sem er innprentaður í sálfræðinni í HÍ. Þegar leið á þriggja daga námskeiðið fór ég að sjá að það sem hann var að segja meikaði sens, og hef notað þær aðferðir sem ég lærði í minni vinnu síðan. Einna lærdómsríkast var þegar karlinn, hvíthærður með staf, settist hjá mér og þakkaði mér fyrir. Undrandi á svip spurði ég hann fyrir hvað. "Fyrir að vera spyrjandi og gagnrýnin" svaraði sá gamli, "það heldur mér á tánum". Þetta kenndi mér að taka opnum örmum þeim sem koma til mín í ráðgjöf og nemendum sem eru ekki að bekenna það sem ég hef að segja eða er að gera.

 Þessi maður er einn af þeim sem hefur haft áhrif á hvernig ég hugsa.

vance peavy

         Næst þegar ég verð með rauðvín í glasi ætla ég að skála fyrir minningu Vance Peavy.


Gamli frestarinn

Nú hefur gamla frestunarártáttan gert vart við sig. Undarlegt að gamlir ósiðir skuli ekki bara hverfa með árunum. Ég er sem sagt frestari -þegar kemur að eigin námi. Gasalega góð meðmæli með námsráðgjafanum. Ég ákvað í gærkvöldi að byrja daginn með stæl og setjast að lestri um leið og ég væri búin að bursta tennurnar. Í dag er ég búin að hreinsa á mér húðina, þvo brjóstarhöld í höndum, taka smá til, kíkja á fréttasíðurnar og athuga hvort eitthvað nýtt sé á Uglunni (netsvæði í HÍ varðandi námið). Hringdi líka í Margo sem er námsráðgjafi í FÍV, en hún á ekki Strong manualinn, sem er vesen því hann er þá ekki til á Eyjunni. Svo er ég með hausverk. Afsakanirnar fyrir að gera allta annað en að lesa streyma fram. Er núna að velt fyrir mér hvernig lit eigi að velja á húsið þegar við málum næsta sumar.

Ég er þó búin að lesa smá, taka Strong prófið og skipuleggja næstu viku. Það er þó eitthvað.

Einstein

 Ætla að taka mér þennan til fyrirmyndar og fara að læra NÚNA!


Helga og tímavélin

Ef ég kæmist yfir tímavél, hvert myndi ég fara? Gera hvað? Datt þetta allt í einu í hug. Hvað væri skynsamlegt að gera? Væri alveg til í að sjá hvort hann gekk raunverulega á vatninu. Spjalla við Freud um Ödipus og Electru og horfa á Leonardo mála síðustu kvöldmáltíðina. Komast að því hvort DaVinci lykilinn á við rök að styðjast og hver skrifaði allar Íslendingasögurnar. Er Njála sönn? Ég væri alveg til í að sjá Rannveigu aftur klifra upp stillans á 22 í minipilsi og koma að Betu hlæja í símann ofan í frystikistu innan um sjálfstæðisrækjurnar hans Adda. Pælið í að hafa orðið vitni að frönsku byltingunni, tepartýinu í Boston og vera á Alþingi á Þingvöllum árið 1000. Bara kúl. Ég held að ég myndi ekki gera neitt skynsamlegt, bara skemmtilegt. Segir eitthvað um karakterinn. Kannski er ég búin að finna upp nýtt persónuleikapróf.

 Lance ofvirka krúsídúlla Knúsa svo Lance í lok viðburðaríks dags.

Leitin að sjálfri mér heldur áfram......


Auglýsi eftir tíma

Mér finnst agalega gaman í skóla. Þar sem áratugur er síðan ég útskrifaðist síðast úr háskóla fannst mér vera komin tími til að setjast aftur á skólabekk. Masterinn í náms- og starfsráðgjöf. Gleymdi því líklega að ég er í fullu starfi, verkefnisstjóri í Olweusi, í stjórn KV og hitt og þetta. Svo á ég 12 og 14 ára stelpur sem eru ekki alveg á sjálfsstýringunni, þó svo ég sé að reyna að þróa fjarstýringu. Láta reyndar ágætlega að stjórn en alltaf má bæta það sem gott er.

Er sem sagt búin að koma mér í þá stöðu að ég er í viðvarandi sjokki! Á að vera búin að lesa 2 af þeim 6 bókum sem ég keypti (á mánudaginn) eftir hálfan mánuð, gera eina ritgerð og eina matsskýrslu. Hef lesið efnisyfirlit, heimildaskrár og Flugdrekahlauparann. En í millitíðinni þarf að græja haustþing KV, stuttan fyrirlestur um hugkort og aðalfund félagsins. Svo verður líka saumó og Eyrún er vonandi að koma.

Ef einhver á nokkra ónotaða klukkutíma vinsamlega látið mig vita.

 


Heilsurækt

Spinning kl.6.10 í fyrramálið. Ekki gleyma að taka með Hörbósheik og töflur. Nóg af vatni. Svitna, púla, verða fitt..  Frumburðurinn ótrúlega dugleg og ætti miðaldra móðurin að taka sér hana til fyrirmyndar. Horfði á hana gera sig klára og reikna út hvenær hún þyrfti að vakana og til baka hvenær hún þyrfti að svífa í draumaheima. Mændi á hana stolt, uppeldið hefur tekist. Fékk mér svo kók og bakkelsi. Og smók.

Þetta er eitthvað öfugsnúið. Eða hvað?


Vöknuð úr dáinu

Datt út í marga mánuði. Tvær ástæður; hafði greinilega ekkert að segja og loksins þegar ég ætlaði að skrifa hér var það ekki hægt vegna víruss.

Þegar ég las um nýjar reglur um bókanir í Herjólf varð mér illt inní mér. Það má eiginlega segja að við séum í fjötrum alþjóðlegs stórfyrirtækis sem heitir Eimskip. Sumir misnota víst bókunarsístemið og bóka villt og galið og mæta svo illa. Mér finnst ekki að þetta eigi að vera mitt vandamál, kompaníið á að taka á þessu innanhúss en ekki hefta enn frekar för okkar um þjóðveginn. Sé nú eftir því að hafa ekki látið verða af hugmyndinni sem kviknaði í málningargenginu í Skipalyftunni fyrir margt löngu. Að læðast í skjóli nætur á pramma að skipi fyrirtækisins sem lá við bryggju og bæta G fyrir framan nafn fyrirtækisins sem málað var stórum stöfum á skrokk skipsins. Djös, lengi að fatta!


Atkvæði til sölu

Nú er 3 mánurðir fram að kosningum. Hvað á að kjósa? Ég er með það alveg á hreinu að ríkisstjórnin verður að fara. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur viðskiptalífsins og þó svo ég sé ekki fjármálasnillingur þá finnst mér þetta fólk búa á öðrum hnetti en ég. Framsókn er djókur, reyndar ótrúlega lífseigur. Sumir í framsókn eru reyndar æði, bara ekki í pólitík. Landbúnaðarráðherra er einn besti stand-up gaur sem við eigum. Bjarni Harðar er fyrirbæri, ég kann að meta fólk sem stendur fast á sínu jafnvel þó að það sem kemur úr þeirra barka sé gjörsamlega út í hött. Alls ekki illa meint, mjög skemmtilegur maður, en á bara ekki heima í pólitík. Frjálslyndir eru einnig fluttir af jörðinni, veit ekki hvert, en þeir eru líklega staddir í tímagati nálægt plánetunni Vúlkan. Vinstri grænir, minnir mig á ofsatrúarmafíu, þar sem foringinn er dýrkaður og dáður (samt til í að sjá Jórunni á þingi). Hef verið frekar höll undir samfylkinguna, en veit ekki. Finnst Össur reyndar skemmtilegur og fáir jafn mælskir og hann. Svo er verið að tala um hægri græna, my ass!

Hvað á til bragðs að taka? Ég held að ég selji mitt atkvæði. Góður vinur minn benti mér einhvern tímann á að fólk kysi eftir eigin hagsmunum, en ekki heildarinnar. Eins og honum finndist þetta frekar smáborgaralegt. Pant vera smáborgari. Ef einhver kemur til mín og selur mér lægri vexti, lækkandi lán versus hækkandi, lækkun á rekstri heimilisins, enn betra menntakerfi á borði ekki bara orði, fjölskylduvænna samfélag, öruggara samfélag fyrir börnin mín og virðulegt ævikvöld svo eitthvað sé nefnt þá er ég til. Mitt atkvæði kostar það sem mér og mínum hentar best. Og hana nú!

 


Seinfæri fattarinn.

Í skóla fannst mér stærðfræði aldrei æðisleg. Gekk þó þokkalega þegar ég nennti að leggja eitthvað á mig. Núna, rétt að verða 40 og, finnst mér stærðfræði algjör snilld. Hef svolítið verið að aðstoða við 8. bekkjar stærðfræðina og fæ algjört kikk út úr því. Ætla að senda erindi til menntamálaráðuneytisins og fá að taka samræmda prófið aftur. Af hverju er maður svona lengi að fatta suma hluti? T.d. hefði ég alveg verið til í að fatta fyrr að það er gott að leggja fyrir og slæmt að nota kreditkort. Einnig að það er ekki gott að drekka of mikið rauðvín, ekki gott að búa á lítilli eyju í norðurhöfum þegar maður er sannfærður um að Brad Pitt sé sá eini rétti (eða George Clooney). Ég get þó huggað mig við að sumir eru ennþá fattlausari en ég. T.d. jeppaeigendur í Vestmannaeyjum. Svona eins og að eiga dúnúlpu í Marokkó, eða einn sem ég þekki sem á svefnpoka sem dugar í 40° frosti en sefur bara í honum í fellihýsi.

Er í óvissunefnd í mínum víðfræga og alræmda saumó með Unni frænku. Erum komnar með smá af hugmyndum en mikið væri gaman að fá fleiri snilldar hugmyndir frá ykkur.... þ.e. ef einhver les þetta! Sem ég reyndar efast um, enda með latari bloggurum ef bloggara skyldi kalla. Eins og konan sagði "ef mig skyldi kalla".


Frekar irriteruð áissu!

Fékk kvörtun, ekki nógu dugleg að blogga. Líklega rétt. Er frekar pirruð og fúl. Fyrir því eru nokkrar ástæður: 1. Varð fyrir slæmu svefnslysi í vikunni þar sem ég rústaði hægri öxlinni, sef ekki og á agalega bágt. 2. Vildi að Rico lögin sem ná yfir skipulagða glæpastarfsemi í USA væru til á Íslandi. Þá væri hægt að húðstrýkja opinberlega liðið sem híar á okkur með okurvöxtum, verðtryggingum og heldur svo ofurveislur sem vextirnir mínir covera. 3. Tók ákvörðun að skipta út bjórtunninni fyrir sixpakk, en er búin með eitt Prins Polo og á eftir að gúffa öðru í mig innan klukkustundar. 4. Er alveg alein heima, Rósa í handboltaferð í Rvk og Karen með sleep-over hjá ömmu, og mín pathetically lónlý. 5. Svo þoli ég ekki Höllu Vilhjálms í X-factor sem kallar mig "kæra áhorfanda" á 5 mínútna fresti.

Annars er allt gott að frétta. Sérstalkega að samkvæmt læknisráði má ég alls ekki vaska upp, ryksuga, skúra og sinna öðrum heimilisstörfum (má örugglega ekki heldur vera í tövlunni). Fór líka í sólarkaffi að hætti Ísfirðinga til mömmmu í gær.

PC240042 Og þetta er mamma mín sæt og fín.

Elska ykkur öll....örugglega (held að engir framsóknarmenn villist hingað inn, veit reyndar um einn sjálfstæðismann (sem er þrátt fyrir það ágætur)).

Helga svefndólgur.


Fram að ármótum

Var að hlusta á viðtal við Hannes Sárason fjármálamógúl extraordiner sem var að kaupa aðra hverja flugvél á jarðkringlunni fyrir skrilljónir. Ræddar voru nýjustu fjárfestingarnar og væntanleg viðskipti fram að áramótum. Mín viðskipti fram að ármótum felast í nautalund, rauðvíni og einum fjölskyldupakka hjá Björgunarfélaginu, og ef ég verð flott á því splæsi ég í sokkarbuxur með góðu aðhaldi. Finnst ég bara nokkuð góð. Ég bý ekki í sama heimi og Hannes.

Það er eitthvað sem truflar mig við það að sumir geti keypt nokkur flugfélög fyrir hádegi á meðan aðrir þurfa að reiða sig á hjálparstofnanir til að fá að borða á jólunum.

Litli krúttlegast frændi í heimi ætlar að koma til mín um áramótin. Hann Tryggvi Freyr er æðilegur og ætlar að koma í bað til mín (ekkert baðkar hjá ömmu lengur). Svo bullum við um ljón og apa og leikum Javs í baðinu. Ég er að plotta að ná honum af foreldrunum og fá að hafa hann ein part úr degi. Unglingurinn á heimilinu hefur áhyggjur af stöðu sinni og heldur því fram að hann eigi stærri part af hjarta mínu en hún. Það er ekki alveg rétt, hún er bara ekki sama krúttið og hún var, samt æðisleg, svona eins og unglingar eru.

P7260031Ofurkrúttið Tryggvi Freyr.

Var með ömmu og afa kaffi á jóladag. Mamma á 7 afkomendur, Rannveig 2 og Bobba 28. Ég á 2.

Svo ætla ég að reyna að muna eftir þessari síðu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband